Kvikmyndaleikarinn Leonardo DiCaprio mun samkvæmt deadline.com vefsíðunni ætla að leika í myndinni The Gambler, og mögulega mun hann þar enn á ný vinna undir stjórn kvikmyndaleikstjórans Martin Scorsese. Félagarnir unnu síðast saman við Shutter Island, og þar á undan við Óskarsverðlaunamyndina The Departed, en myndin var m.a. valin besta mynd ársins og Scorsese fékk Óskar fyrir leikstjórn.
Það er Paramount fyrirtækið sem hyggst gera The Gambler, sem verður endurgerð á dramamynd frá árinu 1974. James Caan lék í upprunalegu myndinni og lék þar fræðimann sem missir tökin á fjárhættuspilamennsku sinni og verður spilafíkill. William Monahan skrifar handrit myndarinnar og Scorsese er orðaður við leikstjórnina, eins og fyrr sagði.
Irwin Winkler og Bob Chartoff munu framleiða.
DiCaprio lauk nýlega við leik í mynd Clint Eastwood, J. Edgar, og leikur Jay Gatsby í endurgerð Baz Luhrman á The Great Gatsby, en sú mynd er byggð samnefndri sígildri skáldsögu F. Scott Fitzgerald.
Á eftir því verkefni mun DiCaprio leika þorpara í mynd Quentin Tarantino, Django Unchained, sem The Weinstein Company framleiðir.
DiCaprio hefur leikið aðalhlutverkið í fjórum myndum Scorsese; Shutter Island, The Departed, The Aviator og The Gangs of New York.