Leikstjórinn Martin Scorsese og Leonardo DiCaprio ætla að taka höndum saman enn á ný í kvikmyndinni The Devil in the White City sem er byggð á bók Erik Larson frá árinu 2003 en hún fjallar um sanna atburði.
DiCaprio mun leika raðmorðingjann Dr. HH Holmes, sem lokkaði til sín fórnarlömb á heimssýningunni í Chicago árið 1893.
Holmes sagðist sjálfur hafa drepið 27 manns en síðar meir var því haldið fram að hann hafi drepið hátt í 200 manns.
Þetta verður í sjötta sinn sem DiCaprio vinnur með Scorsese. Á meðal fyrri mynda þeirrra eru The Wolf of Wall Street og The Departed.
DiCaprio keypti kvikmyndaréttinn að bókinni fyrir fimm árum síðan.
Í henni er sagt frá Dr. Holmes sem breytti stórri byggingu í Chicago í eins konar „morðkastala“.