Depp í viðræðum um Pirates of the Caribbean 5

Það kemur væntanlega engum á óvart, sérstaklega eftir fréttir þess efnis að Pirates of the Caribbean: On Stranger Times sé komin yfir einn milljarð Bandaríkjadala í tekjur á heimsvísu, að framleiðandi myndaflokksins, Disney, er byrjaður að huga að mynd númer 5.
Handritsgerðin hefur staðið yfir í nokkurn tíma, og þó að aðalstjarnan, Johnny Depp, hafi sagst vilja taka aðeins meiri hlé á milli mynda, þá er hann nú þegar í viðræðum um fimmtu myndina, samkvæmt Empire kvikmyndablaðinu.

Empire vísar í The Wrap, sem segir að gróft uppkast sé tilbúið og framleiðandinn Jerry Bruckheimer og samstarfsfólk hans fundi nú stíft um framhaldið.
Nú er spurningin hvenær tökur gætu hafist á þessari mynd, sem þó er ekki orðið 100% víst að verði gerð, en allt tal um slíkt eru aðeins getgátur. Depp verður upptekinn við tökur á The Lone Ranger í ár, og kannski mun hann halda sig við það að láta líða 2 ár á milli sjóræningjamynda.