Depp að missa áhuga fyrir Pirates 4?

Á s.l. föstudag ákvað Dick Cook, formaður Walt Disney Studios, að segja af sér og virðist það hafa heilmikil áhrif á komandi verkefni frá fyrirtækinu. Það er ekki vitað nákvæmlega hvers vegna hann ákvað að hætta, en menn eru að spá því að smáatriðin koma í ljós á næstunni.

Það er allavega vitað að Bob Iger, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, hefur verið gríðarlega óánægður með tekjurnar á undanförnu Disney-myndum á borð við Bedtime Stories, Race to Witch Mountain, Earth og Jonas Brothers 3-D. Þær myndir græddu allar eitthvað, en ekkert miðað við það sem menn höfðu spáð. Hins vegar stóuðst Up og Hannah Montana-myndin væntingar fyrirtækisins.

Cook hafði annars alltaf verið talinn viðkunnanlegur og almennilegur, enda vanur maður sem hafði starfað þarna í tæplega fjóra áratugi. Fjarvera hans er sögð líkleg til að hafa áhrif á komandi Disney-verkefni, þar á meðal Pirates of the Caribbean 4, sem ber undirheitið On Stranger Tides (ég veit. Oj).

Johnny Depp sagði við LA TIMES að hann og Cook hafi verið miklir vinir og sagði ekkert nema góða hluti um samstarf þeirra. Cook var meira að segja maðurinn sem upphaflega samþykkti það að hafa Jack Sparrow-karakterinn svona „furðulegan,“ þegar hinir Disney-mennirnir vildu hafa meira „hefðbundinn“ sjóræningja (svipaðan og Orlando Bloom-karakterinn). Depp segir að Cook hafi sannfært sig um að gera fjórðu myndina og nú þegar hann er farinn er hann óviss hvort hann vilji nokkuð taka þátt í myndinni.

Það á eflaust meira eftir að koma í ljós, en það er ekki ólíklegt að Disney ákveði að gera Pirates 4 með alfarið nýjum leikurum. Skemmtilegt.