Denzel og Zemeckis snúa bökum saman

Hinn virti leikstjóri Robert Zemeckis, maðurinn á bakvið Back to the Future, Forrest Gump og Cast Away (svo eitthvað sé nefnt), ætlar loksins að slíta sig frá „Motion capture“ æðinu sínu og snúa sér að einhverju öðru en tölvugerðum teiknimyndum. Síðustu þrjár myndirnar hans eru The Polar Express, Beowulf og A Christmas Carol. Næsta mynd hans mun vera drama og ber heitið Flight. Nýlega er búið að ganga frá því að fá stórleikarann Denzel Washington um borð.

Handritshöfundur myndarinnar heitir John Gatins, og á ferilskránni hans eru m.a. myndirnar Summer Catch, Coach Carter og Reel Steel, sem er væntanleg í bíó á næstu mánuðum. Tökur á þessari mynd hefjast núna í haust. Fljótlega verður hægt að bjóða Zemeckis aftur velkominn í hefðbundna kvikmyndagerð, þar sem flestum finnst hann eiga heima.