Deadpool 2 – tökur hefjast 1. maí

Tökur á Marvel ofurhetjumyndinni Deadpool 2, sem hefur vinnuheitið Love Machine, munu hefjast þann 1. maí nk. í Vancouver í Kanada.

Deadpool 1 var óvæntasti bíósmellur síðasta árs um heim allan, en myndin varð t.d. fjórða vinsælasta mynd ársins á Íslandi með rúmar 52 milljónir króna í tekjur.

deadpool

Fyrsta Deadpool myndin, sem einnig var tekin upp í Vancouver, heimabæ aðalleikara myndarinnar, Ryan Reynolds, þénaði meira en 780 milljónir Bandaríkjadala um heim allan, en kostaði einungis 58 milljónir dala. Myndin er tekjuhæsta bannaða mynd allra tíma.

Að auki hefur fyrsta myndin fengið nokkur verðlaun og verðlaunatilnefningar, og sumir spá henni tilnefningum til Óskarsverðlana.

Myndin fékk tvær tilnefningar til Golden Globe verðlauna á dögunum, fyrir bestu mynd og fyrir frammistöðu Reynolds í hlutverki ofurhetjunnar orðljótu, Deadpool. Þá fékk myndin sjálf tilnefningu til Producers Guild of America verðlauna, og handritið fékk tilnefningu til Writers Guild verðlaunanna.

Óskarsverðlaunatilefningarnar verða opinberaðar 24. janúar nk., en verðlaunin sjálf verða afhent 26. febrúar.