Deadpool 2 hefur loksins fundið sér leikstjóra, en eins og við höfum sagt frá hér á síðunni, þá hætti Tim Miller, leikstjóri fyrri myndarinnar, við að leikstýra framhaldinu eftir listrænan ágreining við aðalstjörnu myndarinnar, Ryan Reynolds, sem leikur ofurhetjuna orðheppnu Deadpool.
Nýi leikstjórinn heitir David Leitch, og er annar leikstjóra óvænta smellsins John Wick frá árinu 2015, þar sem Keanu Reeves fór með hlutverk leigumorðingja sem tók byssuna ofanaf hillunni, til að leita hefnda.
Óvissa reis um gerð Deadpool 2 við fregnir af brotthvarfi Miller, en nú ættu allir að geta tekið gleði sína á ný.
Lítið er enn vitað um framhaldsmyndina, annað en að þorparinn Cable mun koma við sögu.
Leitch leikstýrði eins og fyrr sagði John Wick í félagi við Chad Stahelski. Leitch ákvað að vera ekki á bakvið myndavélina í John Wick 2, sem kemur í bíó nú í febrúar nk., en tengist myndinni sem framleiðandi og stjórnandi áhættuatriða. Stahelski leikstýrir.
Deadpool er án efa stærsti smellur ársins 2016 hagnaðarlega séð. Myndin kostaði 58 milljónir Bandaríkjadala, en tekjur af sýningum hennar um allan heim nema margfaldri þeirri upphæð, eða um 782 milljónum dala.
Von er á framhaldsmyndinni í bíó árið 2018.