Í fyrra var Creed aðal boxmyndin, en nú er komið að Steinhöndum, eða Hands of Stone!
Myndin er eftir leikstjórann og handritshöfundinn Jonathan Jakubowicz, en í henni leikur Edgar Ramirez hinn þekkta atvinnuboxara frá Panama, Roberto Duran, en Robert De Niro, sem vann Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í boxmyndinni Raging Bull, leikur þjálfarann Ray Arcel.
Duran keppti við þekkta kappa eins og Sugar Ray Leonard, Thomas Hearns, Marvin Hagler og fleiri, og vann 103 viðureignir af 119 alls, sem setur hann á stall með þeim allra bestu í íþróttinni.
„Ég held að þetta sé frábær mynd,“ sagði Ramirez við Variety kvikmyndaritið. „Hún segir ekki einungis sögu af goðsagnakenndum latínó -bandarískum hnefaleikamanni, heldur einnig af manni sem varð hetja í heimalandinu.“
Fyrsta kitlan er nú komin út fyrir myndina en í henni sést smá hasar innan og utan hringsins.
Aðrir helstu leikarar eru Usher Raymond, Ana de Armas, Ellen Barkin og John Turturro,.
Kíktu á kitluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan.
Myndin kemur í bíó í Bandaríkjunum í ágúst nk.