Þungt högg í punginn

Asnakjálkarnir í Jackass mæta aftur á hvíta tjaldið um þarnæstu helgi í splunkunýrri mynd, Jackass Forever, og miðað við það sem sem sjá má í meðfylgjandi myndbroti eru þeir enn við sama heygarðshornið.

Jackass Forever er ef kvikmyndir.is skjátlast ekki; fimmta Jackass myndin, en sú fyrsta var frumsýnd fyrir tuttugu árum síðan, eða árið 2002. Einnig hafa verið gerðar hliðarmyndir og framhjáhlaup ýmiss konar.

Jackass er upprunalega bandarískur grín-raunveruleikaþáttur eftir þá Jeff Tremaine, Spike Jonze og Johnny Knoxville. Þættirnir voru sýndir í þrjú ár á MTV tónlistarstöðinni, frá október árið 2000 til febrúar 2002.

Helstu leikarar sem komið hafa við sögu í gegnum árin, og framið gáskafull prakkarastrik hingað og þangað, eru auk Knoxville þeir Bam Margera, Chris Pontius, Dave England, Steve-O, Ryan Dunn, Ehren McGhehey, Preston Lacy og Jason Acuña.

Opinber söguþráður nýju myndarinnar er eftirfarandi: Upprunalega Jackass gengið er mætt á ný í sína síðustu krossferð, ellefu árum eftir að það kom saman síðast. Að venju ganga þeir lengra en flestir aðrir í ótrúlega fyndnum en stórskrítnum og oft hættulegum áhættuatriðum.

Viðkvæmur staður

Í myndbandinu hér fyrir neðan fáum við að kíkja aðeins á bakvið tjöldin þegar atriði er undirbúið þar sem þungavigarhnefaleikamaður býr sig undir að berja einn asnakjálkann á viðkvæman stað!

Jackass: