Cronenberg og masókistinn Pattinson

Eftir hina tiltölulega-stöðugu A Dangerous Method snýr leikstjórinn David Cronenberg sér aftur að þeim súrrealísma og grófa ofbeldi sem hefur gert hann frægan. Myndin heitir Cosmopolis og skartar engum öðrum en vampírunni Robert Pattinson í aðalhlutverki, en það má ekki segja að hann sé á heimavelli hér.

Hann leikur milljónamæringinn Eric Parker og myndin spannar einn dag í lífi hans. Það vill svo til að á þessum degi byrjar Eric að tapa peningum hægri vinstri án útskýringar og ákveður hann einfaldlega að sætta sig við hrunið og skemmta sér á meðan hann getur.
Vitandi fyrri sögu leikstjórans er auðveldlega hægt að sjá hvernig svona auðveld uppsetning breytist í kolklikkaðan leir sem Cronenberg mun án efa móta á óhugsandi hátt. Samkvæmt hinni nýútgefnu stiklu fyrir myndina verður þessi álíka sturluð og hrottaleg og bílslysa-erótík Cronenbergs frá árinu 1996, Crash; jafnvel verður hún svipað umdeild.

Þetta er fyrsta myndin byggð á handriti eftir Cronenberg sjálfan í 13 ár (sem er sjálft byggt á skáldsögu eftir Don DeLillo) og það tók hann rétt yfir 6 daga að skrifa það. Hún er væntanleg þann 23. maí næstkomandi.

Sem aðdáandi leikstjórans hafði ég satt að segja ekki miklar væntingar þegar að ég heyrði að næsta myndin hans yrði bókstaflega Robert Pattinson í limmósíu, en stiklan hefur gjörbreytt álitinu og sett hana á kortið hjá mér. Er andinn sá sami hjá ykkur lesendum?