Austurísk-þýski leikarinn og tvöfaldi Óskarsverðlaunahafinn Christoph Waltz á í viðræðum um að leika aðal skúrkinn í nýrri mynd um Tarzan, en Alexander Skarsgard leikur Tarzan sjálfan.
Leikstjóri verður David Yates.
Enn er óvíst hvaða tökum höfundar myndarinnar ætla að taka þessa margfrægu og sígildu sögu, en heimildir Variety kvikmyndavefjarins herma að Waltz verði aðili úr hernum sem verður á vegi konungs apanna.
Ýmsir höfundar hafa komið að handritaskrifum fyrir myndina, m.a. þau John August, Cormac og Marianne Wibberley og nú síðast Adam Cozad.
Enn er beðið ákvörðunar frá kvikmyndaverinu um hvenær tökur eigi að hefjast, en horft er til þess að byrja í nóvember nk. Yates er nú sem stendur að leita að leikkonu í aðal kvenhlutverkið, hlutverk Jane, kærustu Tarzan.
Heimildir Variety segja að Margot Robbie og Emma Stone séu á meðal þeirra leikkvenna sem Yates hefur verið að ræða við.
Næsta mynd sem hægt er að sjá Waltz í er myndin The Zero Theorem eftir Terry Gilliam. Waltz fékk eins og kunnugt er Óskarsverðlaunin fyrr á þessu ári fyrir hlutverk sitt í Tarantino myndinni Django Unchained.