Crazy Rich Asians orðin sú vinsælasta í 10 ár

Kvikmyndin vinsæla Crazy Rich Asians, sem nú er í sýningum í bíóhúsum hér á landi, hefur slegið risastórt met í miðasölu í Bandaríkjunum, en myndin er nú orðin tekjuhæsta rómantíska gamanmyndin þar í landi síðastliðin 10 ár, en nú um helgina sigldi myndin fram úr tekjum myndarinnar The Proposal frá árinu 2009, samkvæmt áætluðum aðsóknartölum frá vefnum Box Office Mojo.

Kvikmyndin, sem frumsýnd var í ágúst sl. og er byggð á skáldsögu Kevin Kwan um moldríkar fjölskyldur í Asíu, var tímamótamynd fyrir asísk-bandaríska áhorfendur, þar sem hún er fyrsta Hollywood myndin í 25 ár þar sem öll helstu hlutverk eru í höndum fólks af asísku bergi brotið.

Myndin, ásamt myndum eins og Black Panther og Coco, heldur því áfram að eyða þeirri goðsögn, að ekki borgi sig að gera kvikmyndir um „litað fólk“ í Hollywood, eins og sagt er frá í The Huffington Post.

Auk þess sem tekjur myndarinnar fóru fram úr The Proposal, sem var með tekjur upp á 164 milljónir bandaríkjadala í Bandaríkjunum, þá hefur myndin einnig farið fram úr Sex and the City frá árinu 2008, en tekjur hennar námu 152,6 milljónum dala á sínum tíma.

Skömmu eftir frumsýningu sló Crazy Rich Asians ýmis önnur met, eins og að vera mest sótta mynd á hinni svokölluðu Labor Day helgi í Bandaríkjunum í 11 ár, og vinsælasta leikna gamanmyndin síðan á síðasta ári.

Þá segir í Huffington Post að myndin gefi til kynna aukinn áhuga á rómantískum gamanmyndum almennt í heiminum.

Tekjuhæsta rómantíska gamanmynd allra tíma er My Big Fat Greek Wedding frá árinu 2002, en tekjur hennar námu 241 milljón dala í Bandaríkjunum.

Vinsældir Crazy Rich Asians hafa nú leitt til þess að undirbúningur er hafin að kvikmyndun á annarri bók Kwan í Crazy Rich Asians þríleiknum, China Rich Girlfriend.

Þó hefur Warner Bros ekki formlega gefið grænt ljós á framhaldið, en helstu leikarar hafa gefið samþykki sitt. Leikstjórinn Jon M. Chu sagði Variety í síðustu viku að hann væri að skoða samning um að leikstýra framhaldsmynd.