Cotillard og Gordon-Levitt í Batman – Hlutverk opinberuð

Warner Bros hefur nú gefið frá sér yfirlýsingu þar sem staðfest er að leikararnir Marion Cotillard og Joseph Gordon-Levitt munu ganga til liðs við Christopher Nolan í þriðju og síðustu Batman-mynd hans, The Dark Knight Rises. Sömuleiðis var staðfest hvaða hlutverk þau myndu taka að sér.

Leikkonan Cotillard mun fara með hlutverk Miranda Tate. Tate situr í stjórn Wayne Enterprises og finnur sig knúna til að hjálpa Bruce Wayne í góðgerðarmálum fyrir Gotham-borg. Á meðan fer Gordon-Levitt með hlutverk rannsóknarlögreglumannsins John Blake sem er úthlutað sérstakt verkefni undir stjórn Gordon lögreglustjóra.

Leikararnir tveir léku bæði í Inception frá Christopher Nolan, en með yfirlýsingunni frá Warner Bros. sagði Nolan, „Þegar þú starfar með jafn hæfileikaríku fólki og Marion og Joe leitar þú við að vinna með þeim aftur. Ég hugsaði strax til þeirra í hlutverk Miröndu og John og ég hlakka mikið til að vinna með þeim á ný.“