Cooper vill verða Armstrong

Eins og við sögðum frá á dögunum þá stendur til að gera mynd um hjólreiðamanninn Lance Armstrong sem viðurkenndi í síðustu viku að hafa svindlað allan sinn feril, og hefur verið sviptur öllum sínum helstu titlum.

Leikarinn Óskarstilnefndi Bradley Cooper varð fljótur til að lýsa yfir áhuga á að leika Armstrong í þessari mynd. „Ég myndi vera mjög áhugasamur [að leika Armstrong ] “ sagði Cooper við fréttastofu BBC í Bretlandi. „Mér finnst hann töfrandi. Ótrúlega heillandi persóna.“

„Ég man að Matt Damon var að pæla í að gera mynd eftir sjálfsævisögu hans fyrir nokkrum árum,“ bætti Cooper við í viðtalinu. „Ég man að ég hugsaði, þetta yrði frábær persóna, ég myndi elska að leika svona persónu. Ég væri mikið til í að gera eitthvað, ég held að hann sé mjög töfrandi.“

Áhugi Cooper þýðir þó ekki að hann sé nálægt því að landa hlutverkinu, enda er myndin ennþá á byrjunarreit. Hugsanlega gæti áhugi hans samt haft áhrif á JJ Abrams sem á kvikmyndaréttinn.

Myndin um Armstrong er sögð verða byggð á væntanlegri bók íþróttafréttamanns bandaríska blaðsins New York Times, Juliet Macur, Cycle of Lies: The Fall of Lance Armstrong.

Lance Armstrong er hjólreiðakappi sem vann erfiðustu hjólreiðakeppni heims, Tour De France sjö sinnum. Auk þess hlaut hann bronsverðlaun á Ólympíuleikum.

Í síðustu viku viðurkenndi hann að hafa svindlað og notað lyf til að bæta frammistöðu sína allan sinn feril.