Con Air 2 á óskalistanum

Leikstjórinn Simon West er maðurinn bakvið hina væntanlegu The Mechanic, sem skartar Jason Statham í enn einu töffarahlutverkinu. En fyrir einum 14 árum leikstýrði West sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd og var það Nicolas Cage-hasarinn Con Air. Í nýlegu viðtali sagði leikstjórinn að fengi hann að velja hvaða verkefni sem er til að taka að sér næst væri framhald að Con Air efst á óskalistanum.

„Ég ætla að reyna að gera [Nicolas Cage] spenntan fyrir því,“ sagði West, en þeir tveir munu leiða saman hesta sína á ný fyrir myndina The Medallion. „Ef við viljum báðir láta verða að því er það spurning um að fá alla hina til baka.“

Con Air kom út árið 1997 og skartaði meðal annars þeim John Malkovich, Steve Buscemi og John Cusack, en ófáar persónurnar sem birtust í henni létu lífið. En allt er hægt í Hollywood og aldrei að vita nema Con Air 2 geri allt tryllt í bíóhúsum í náinni framtíð.

– Bjarki Dagur