Þrívíddar geimtryllirinn Gravity eftir Alfonso Cuarón með þeim Sandra Bullock og George Clooney, í aðalhlutverkum, verður opnunarmynd 70. kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum, þann 28. ágúst nk. Myndin verður þó ekki ein af keppnismyndum hátíðarinnar í ár.
Í myndinnni leikur Sandra Bullock Dr. Ryan Stone, verkfræðing í sinni fyrstu geimferð, en með henni í för er hinn alvani geimfari Matt Kowalsky, sem leikinn er af George Clooney, í sinni síðustu geimferð áður en hann sest í helgan stein. Þegar þau eru að vinna fyrir utan geimstöðina, þá verður slys og geimferjan eyðileggst. Þau tvö eru allt í einu alein í geimnum, og fljóta um í þyngdarleysinu. Það er ekkert fjarskiptasamband við Jörðu, og fljótlega fer örvænting að grípa um sig. Þau uppgötva að eina leiðin til að komast aftur heim til Jarðar er að fara lengra út í geim.
Fyrsta mynd Cuarón’s til að vera sýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum var myndin Y Tu Mamá También sem vann The Golden Osella árið 2001, en það eru ein af þeim verðlaunum sem veitt eru á hátíðinni.
Verðlaunin hlaut leikstjórinn fyrir besta handrit ásamt því sem aðalleikarar myndarinnar, Gael García Bernal og Diego Luna fengu Marcello Mastroianni verðlaunin.
Árið 2006 hlaut mynd Cuarón, Children Of Men Golden Osella verðlaunin fyrir kvikmyndatöku.
Kvikmyndahátíðin í Feneyjum stendur frá 28. ágúst til 7. september.
Kíktu á stikluna fyrir Gravity hér fyrir neðan: