Bumblebee leikari óhræddur við mistök

Bumblebee leikarinn John Cena trúir ekki á að vera „fullur af sjálfum“ sér, enda hefði það getað gert honum erfitt fyrir á þeim tíma þegar hann gerði garðinn frægan í fjölbragðaglímu í Bandaríkjunum þar sem fólk lét hann heyra það af áhorfendapöllunum og öskraði trekk í trekk þegar hann var á leið inn í gímuhringinn;  „John Cena er glataður“.

Þessi lífsspeki hefur hjálpað Cena að lifa af bæði kröfurnar sem gerðar eru í atvinnukeppni í glímu, þar sem enginn bjóst við neinu af honum til að byrja með, og núna í Hollywood, þar sem hann hefur átt magnaða endurkomu, eins og sagt er frá í grein í vefútgáfu Chicago Sun Times, eftir nokkrar misheppnaðar kvikmyndir upp úr síðustu aldamótum.

Á síðustu þremur árum hefur Cena verið áberandi í öllum þeim verkefnum sem hann hefur tekið þátt í, hvort sem það er í hlutverki kærasta sem lætur allt flakka í Trainwreck, eða sem ofverndandi pabbi unglings í Blockers. Einnig sem hermaður með frábæra frasa í hinni risastóru Transformers hliðar-kvikmynd Bumblebee, sem er í bíó hér á landi um þessar mundir.

„Ég er ekki hræddur við að gera mistök, ég er ekki hræddur við að líta út eins og asni,“ segir Cena í samtali við blaðið. „Ég og bíógesturinn erum eitt .. ég vil skemmta fólki. Ég vil gera fólk ánægt.“

Og það er nákvæmlega það sem Cena hefur tekist nú eftir slæma byrjun á leikferlinum. Þar til fyrir fáeinum árum síðan var Rotten Tomatoes einkunn hans fyrir auðgleymanlegar kvikmyndir eins og 12 Rounds, The Marine og Legendary, rétt um 30%. En Cena, með alla sína reynslu úr íþróttaheiminum, bugaðist ekki, þrátt fyrir neikvæða gagnrýni. Hann lærði af öllu saman. „Ég var ekki heill og sannur í þeim. Ég vildi vera annars staðar. Ég lék í þessum kvikmyndum af því að það hentaði viðskiptaáætluninni á þeim tíma,“ segir Cena. „Það sem ég lærði af þessu er að þú verður að gera það sem þú elskar.“

Og tækifærið kom í Amy Schumer gamanmyndinni Trainwreck, þar sem Cena lék eftirminnilega vaxtarræktarmann og kærasta Schumer. Á eftir fylgdu hlutverk í kvikmyndunum Sisters, Daddy´s Home og fyrrnefndri Blockers.

Og eins og sagði hér á undan, þá er það nú Bumblebee sem allt snýst um, stærsta kvikmynd leikarans til þessa, sem er með 97% á Rotten Tomeatoes, sem þýðir að myndin er sú sem er með hæstu einkunn allra hans mynda til þessa.

Cena var á þeim tíma þegar handritið að Bumblebee rataði í hendur hans, alls ekki að leita sér að kvikmyndaseríu til að leika í, og ekki hasarmynd heldur. Hann var heldur ekkert sérstaklega hrifinn af Transformers seríunni. En svo las hann handritið og leist vel á fallega söguna í myndinni um stúlku, sem Hailee Steinfeld leikur, og vélmenni sem minnti á E.T., og ákvað að þetta væri eitthvað sem hann vildi taka þátt í.  „Ég hugsaði, ég get verið aukahjól undir vagninum þess vegna, mér var alveg sama. Ég vildi bara fá að gera eitthvað í myndinni.“