Þrjár ofurhetjur mæta aftur til leiks í X-Men

Bryan Singer, leikstjóri næstu X-Men myndar, Days of Future Past, tilkynnir í nýrri færslu á Twitter samskiptavefnum að hann sé búinn að fá til liðs við sig þrjá leikara úr fyrstu myndunum til að leika í myndinni. „Mér er það mikil ánægja að bjóða velkomin þau Anna Paquin, Ellen Page og Shawn Ashmore í X-Men Days of Future Past […]“ segir leikstjórinn á Twitter. 

 

Leikararnir þrír bætast þar með í góðan hóp leikara, en ekki er langt síðan staðfest var að Hugh Jackman myndi snúa aftur í X-Men sem Wolverine.

Anna Paquin lék Rogue í fyrstu þremur X-Men myndunum. Ashmore lék Bobby Drake – Iceman – sem varð ástfanginn af Rogue. Samband þeirra hélt áfram þó svo að hæfileiki Rougue, þ.e. að sjúga orku og líf úr fólki, þýddi að snerting kærustuparsins væri af þessum orsökum miklum erfiðleikum háð, svo ekki sé meira sagt.

Kitty Pryde, sem Ellen Page leikur, kemur mikið við sögu í Days of Future Past teiknimyndasögunni, þannig að það er mjög rökrétt að hún komi við sögu í nýju myndinni ásamt þeim Prófessor X og Magneto.

Aðrir leikarar sem eru staðfestir fyrir myndina eru: Ian McKellen, Patrick Stewart, James McAvoy, Michael Fassbender, Jennifer Lawrence, Nicholas Hoult og fyrrnefndur Hugh Jackman. 

Búist er við að tökur myndarinnar hefjist fljótlega, en frumsýning er áætluð 18. júlí, 2014.