Þriggja hæða risi á leiðinni

Warner Bros hefur keypt kvikmyndaréttinn að teiknimyndasögunni
„3 Story: The Secret History of the Giant Man,“ eða Þriggja hæða: Hin leynilega saga risastóra mannsins, sem gefin er út af Dark Horse Comics og er eftir Matt Kindt. Dustin Lance Black, sem fékk Óskarsverðlaunin fyrir handritið að Milk, hefur verið ráðinn til að skrifa handritið og leikstýra.

Teiknimyndasagan er nútímaleg saga um líf risastórs manns, Craig Pressgang, en hann er haldinn sjúkdómi sem veldur gríðarlegum og áframhaldandi ofvexti.

Sagan er sögð út frá sjónarhóli þriggja kvenna, móður hans, eiginkonu og dóttur, og segir sögu Craigs frá fæðingu og þar til hann er orðinn jafn stór og þriggja hæða hús.

Undirtónn myndarinnar er saga af einmanaleika og aðlögunarhæfni ástarinnar.

Kaup Warners á sögunni þykja áhugaverð, enda er sagan talin meira á listrænu hliðinni.

Warners segir að áherslan í kvikmyndinni muni verða samband föður og dóttur, og minna gert úr angurværum endinum.

Fyrsta myndin sem Black leikstýrði var sjálfstæða dramað What´s Wrong With Virginia, með Emmu Roberts og Jennifer Connelly. Hann skrifaði einnig handritið að myndinni, en ekki er búið að tilkynna um frumsýningardag þeirrar myndar.

Black ritaði einnig handritið að síðustu mynd Clint Eastwoods, Hoover, um hinn sögufræga fyrrum yfirmann FBI, J. Edgar Hoover. Hann skrifaði einnig nýlega og framleiddi nokkra þætti af Big Love, fyrir HBO sjónvarpsstöðina.