Braut þrjú rifbein í John Wick 3

Halle Berry braut þrjú rifbein í tökum á nýju John Wick myndinni, John Wick: Chapter 3 – Parabellum.

Halle Berry rifbeinsbrotin.

Berry, sem er 52 ára, leikur Sofíu í myndinni á móti Keanu Reeves sem fer með titilhlutverkið, hlutverk leigumorðingjans John Wick, sem neyðist í fyrstu myndinni til að snúa til baka í fagið eftir að unnustan deyr og þrjótar myrða hundinn hans. Síðan þá hefur hann eignast marga nýja óvini.

Berry segir að það hafi tekið á að leika í myndinni, enda fylgdu þessu miklar og erfiðar undirbúningsæfingar, og sem fyrr sagði brotnuðu þrjú rif.

Í samtali við Extra sagði Berr: „Ég braut þrjú rifbein þegar ég var að æfa fyrir John Wick. Þetta er samt eitthvað sem ég er stolt af á ákveðinn hátt, við vitum ekki hvað gerðist … ég æfði í smá tíma með rifin brotin, þar til ég gat ekki meira.

Við æfðum tímunum saman í hasaræfingum, byssuæfingum, hundaæfingum, og svo eru lyftingar þar til viðbótar, auk þess sem maður þarf að fylgja stífu mataræði.

Flinkur Reeves

En þrátt fyrir hnjaskið, þá fannst Berry upplifunin á tökustað frábær, en viðurkenndi að hún hafi fyrst verið skelfingu lostin, þar sem Reeves hafi verið svo flinkur.

Um samleik þeirra sagði Berry við Extra: „Þetta var mjög magnað. Ég var skefld í fyrstu, þar sem hann er svo geggjaður, og ég vildi vera jafn góð og hann. Ég vildi ekki valda honum vonbrigðum.“

Tengt þessu sagði Catwoman leikkonan nýlega að hún væri í sínu allra besta líkamlega formi vegna fyrrnefndra æfinga, en leikstjórinn, Chad Stahelski, er fyrrum áhættuleikari.

Í samtali við ET Online sagði hún: [Chad] kom mér í besta form lífs míns. Þessir gæjar vita hvað þeir eru að gera. Ég hef aldrei lagt jafn mikið á mig. Ég hef aldrei verið í jafn góðu formi andlega og líkamlega, og það er vegna þess að ég var að vinna með þeim bestu í faginu. Þannig að það fylgja því miklir kostir.

John Wick: Chapter 3 – Parabellum kemur í bíó hér á landi og annarsstaðar 17. maí nk.