Margir bíða spenntir eftir næsta kafla í James Bond seríunni og fréttir af honum hafa einungis gert aðdáendur njósnarans ofursvala spenntari. Fyrir þónokkru síðan kom í ljós að stórleikararnir Javier Bardem og Ralph Fiennes myndu ganga til liðs við Daniel Craig í 23. Bond-myndinni, en nú fregnir herma að hin goðsagnakennda Moneypenny muni loksins mæta á svæðið.
Það er engin önnur en þokkagyðjan Naomie Harries sem er sögð hafa hreppt hlutverk Moneypenny, einkaritara og aðstoðarkonu M. Harris er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt í Pirates of the Caribbean-seríunni, en nú síðast birtist hún áhorfendum í spennumyndinni Ninja Assassin.
Aðdáendur Bond-myndanna hafa lengi beðið eftir að Moneypenny snéri aftur úr hvíld en persónan birtist síðast í myndinni Die Another Day árið 2002. Moneypenny er ein af fáum konum sem standast sjarma Bond, en það er aldrei að vita hvort við fáum loksins að sjá þau stinga saman nefjum í Bond 23, en hún verður í leikstjórn Sam Mendes.