Eftirfarandi grein er aðsend – Það er Sigríður Clausen sem skrifar:
Þú þarft ekki að vera hellisbúi til að vita allt um endalausar endurgerðir. Þú kannt kannski að meta eina eða þolir ekki aðra. Þú getur kvartað og kveinað, hrósað og klappað, hvað sem er því eitt er víst. Þær eru komnar til að vera næsta áratuginn ef ekki áratugi. Endurgerðir geta gert það gott en allt er gott í hófi, fyrir hverja eina góða endurgerð eru eflaust fjórar tilgangslausar eða slæmar.
Menn spyrja sig hvort vandinn sé að hugmyndirnar eru uppþornaðar, skortur á skapandi handritshöfundum eða er þetta taktík þar sem sama uppskrift er notuð með meira kryddi til að betrumbæta þekkta sögu? Ég er ein þeirra sem tel þetta blöndu af peningasýki stóru kvikmyndaveranna ásamt leti handritshöfunda.
Það er mun einfaldara að endurskrifa og endurgera eldri hluti sem og það gæti reynst öruggara að veðja á nostalgíuþörf áhorfenda heldur en að skrifa nýjar sögur þar sem fólk þarf að kynnast nýjum persónum í nýrri veröld að lenda í einhverju alveg nýju. Eins og nýjustu útspil Disney sýna þá hafa þær Lion King, Aladdín og Dumbo, sem sagt endurgerðir síðasta árs halað inn rétt tæpa 3 milljarða dollara á heimsvísu þar sem heildarkostnaður þeirra eru rúmar 600 milljónir.
Það eru auðvitað sumar myndir sem slá í gegn, færa okkur bæði nýtt og gamalt sem samtvinnast í nýja upplifun. Ég get einmitt sagt að ég hafi ekki hatað Aladdín. Í byrjun átti ég ansi erfitt, sérstaklega í upphafsatriðinu en svo leyfði ég myndinni soldið að standa á eigin fótum í stað þess að setja hana í endalausan samanburð við upprunalegu myndina. Þá var hún fín og ég fílaði breytingarnar, aukakryddið og það sem meira er þá var Will Smith bara nokkuð ágætur…
En svo eru það myndir eins og Lion King….. og vá ,hvað ég sá eftir því að hafa farið á hana, eytt pening á hana (þó það hefði verið 2 fyrir 1) og það sem meira er sé ég eftir tímanum sem fór í að horfa á hana. Jú vissulega eru ljónin falleg og vel gerð, algert tækniundur og allt það en ég hugsa ég myndi bara horfa á National Geography næst þegar mig langar að fylgjast með raunverulegu dýralífi.
Ef veiran leyfir…
Talandi um dýralíf. Ég var mjög svartsýn á Dumbo endurgerðina þannig ég beið bara eftir því að hún kæmi á sjónvarpsleigurnar. Ég horfði á þessa myrku og sérkennilegu Tim Burton útfærslu og ég ELSKAÐI hana. Upprunalega teiknimyndin endaði nánast þegar hún var í miðju flugtaki en þessi færir okkur allt flugið og ágætis lendingu. Burton í sirkusumhverfi klikkar seint en það er í raun alveg ótrúlegt að Dumbo hafi unnið endurgerðarkeppni ársins 2019. Vissulega var líka Lady and the Tramp endurgerð sem fór beint á Disney+ í nóvember en hún sló svo sem engin met og var bara með þessum hugljúfu myndum sem gott er að horfa á en færði okkur lítið meira en kjötbollur án spaghettís.
Eins og áður var nefnt þá eru endurgerðir ekkert að hægja á sér. Næsta Disney endurgerð er áætluð nú í lok mars ef kórónaveiran leyfir en það er Mulan. Myndin er enn áætluð 27. mars hérlendis og þegar hún hefur ruðst inn í kvikmyndahúsin kemur önnur Disney endurgerð á næsta ári þegar Grimmhildur segir okkur sína sögu. Svo kemur Litla Hafmeyjan, Lilo og Stitch, Hringjarinn í Notre Dame (ekki tekin upp við Notre Dame af góðri ástæðu), Sverðið í steininum á Disney+, Gosi, Pétur Pan og fleira og fleira. Listinn virðist ekki tæmast því sögur má segja á ólíkan máta, útfrá ólíkum sjónarhornum og gefa okkur ólíkar upplifanir. Því miður lifir þessi hefð meðan áhorfendur rétta Disney músinni peningana sína ítrekað aftur og aftur og aftur. Nú hefur Disney keypt hvert kvikmyndaverið á eftir öðru og á því réttinn á ógrynni af kvikmyndum sem komið hafa út og gætu þess vegna endurgert miklu meira en bara Alien-myndirnar, Home Alone eða Die Hard í kjölfar kaupana á Fox.
Hvernig verður framtíðin þegar nostalgía barnanna í dag snýr að nostalgíu foreldranna? Munu klassísku teiknimyndirnar enn lifa eða verða endurgerðirnar þær sem verða fyrir valinu á föstudagskvöldum þegar foreldrar sýna börnum sínum gamla mynd úr æskunni? Eða munu kvikmyndir hætta þessu bulli, koma með frumlegar hugmyndir aftur í meirihluta?