Kvikmyndin Bjarnfreðarson, í leikstjórn Ragnars Bragasonar, situr á toppi aðsóknarlista SMÁÍS aðra vikuna í röð. Í tilkynningu frá Sagafilm segir að 41.000 bíógestir hafi verið búnir að sjá myndina þann 4. janúar sl.“myndin stefnir hraðbyri í að verða ein aðsóknarmesta mynd á Íslandi hvort sem litið er til íslenskra eða erlendra mynda. Ef svo fer fram sem horfir má búast við því að Bjarnfreðarson velgi aðsóknarmeti Mýrinnar undir uggum sem stærsta íslenska mynd allra tíma,“ segir í tilkynningunni.
Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að þessi árangur sé ekki síst góður í ljósi þess að ein aðsóknarmesta mynd bíósögunnar, Avatar, sé sýnd á sama tíma og sitji á toppi aðsóknarlista úti um allan heim. „Skv. lauslegri könnun þeirra sem þetta skrifa er Ísland eina landið þar sem Avatar er ekki á toppnum (af þeim löndum þar sem hún er í sýningum).“
„Aðstandendur er að vonum himinlifandi með árangurinn sem farið hefur fram úr þeirra björtustu vonum. Myndin, sem fengið hefur mjög góða dóma, spyrst einnig geysivel út á samskiptasíðum internetsins eins og glöggt má sjá þegar titli myndarinnar er slegið inní leitarvélar eða á Facebook þar sem yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tjá sig um myndina mæla með henni og/eða gefa henni hæstu einkunn,“ segir í fréttatilkynningu Sagafilm.

