Videorýnisævintýrið hjá Kvikmyndir.is heldur áfram þessa vikuna með
splunkunýjum þætti af BíóTal, en BíóTal er þáttur þar sem tveir óháðir
og fjallmyndarlegir kvikmyndagagnrýnendur, Tómas Rizzo og Sindri Grétarsson, ræða nýjustu myndirnar hverju
sinni. Í þetta skiptið eru myndirnar fleiri en við eigum að venjast: Juno, The Diving Bell and the Butterfly, Be Kind Rewind og The Kite Runner verða allar fyrir barðinu á Tomma og Sindra.
Strákarnir segja að Juno sé hálf leiðinleg, tónlistin leiðinleg og myndin virkilega indie sem kom eiginlega niður á henni á endanum. Ellen Page var alger tussa (afsakið orðbragðið) í myndinni, en vel leikin tussa engu að síður. Helsti gallinn á myndinni er hvað hún reynir rosalega mikið að vera lítil og sæt og sérstök og spes (sbr.hamborgarasíminn) að það hálfpartinn misheppnast. Þegar allt kemur til alls höfðu þeir kumpánar gaman af henni og fær hún heilar 3 stjörnur, sem verður að teljast ótrúlegt miðað við hversu mikið þeir drulla yfir hana í rýninni.
Sindri sá The Diving Bell and the Butterfly sem hann segir án efa vera eina af bestu myndum ársins 2007, og hún minnir um margt á My Left Foot. Myndin er alveg rosalega sterk þegar hún byrjar en eftir það þá er leiðin niðurávið. Myndin var virkilega vel leikin og myndatakan frábær. Hún nær að halda góðu jafnvægi milli húmors og drama og fær 3 og 1/2 stjörnu fyrir verkið.
Næsta mynd var Be Kind Rewind og segja þeir hana vera alltof mikla klisju. Myndin var eiginlega ekkert rosalega fyndin og karakterarnir hálf ómerkilegir(Jack Black var alltof mikið að reyna og Mos Def var….Mos Def). Súr og furðuleg mynd sem lítið stendur uppúr. Boðskapurinn er sá að þegar fullt af fólki kemur saman og vinnur að einhverju ákveðnu þá verða allir svo rosalega ánægðir og kraftaverk gerist – alltof þurr til að halda myndinni uppi til enda. 2 stjörnur.
Þrátt fyrir að allir hafi hvatt Tomma til að lesa bókina Flugdrekahlauparinn ( The Kite Runner) þá gerði hann það ekki og var ekki beint með væntingarnar í hámarki þegar hann frétti að það ætti að gera mynd um hana. The Kite Runner er frábær, ótrúlega vel leikin og ein af þessum fáu myndum sem er keyrð áfram af góðum söguþræði. Hún reynir ekki að vera neitt meira en hún er. Ein af bestu myndum 2007. 3 og 1/2 stjarna.

