Be Kind Rewind býr yfir skemmtilegum söguþræði og allt það en almennt séð er myndin ekkert rosalega eftirminnileg. Helsti galli myndarinnar þó er að mórallinn fer svo langt fram úr sjálfum söguþræðinum. Ég fattaði alveg hvað myndin var að segja mér í lokin, en hún leggur svo yfirdrifna áherslu á boðskapinn að söguþráðurinn, sem og mest allt annað, fuðrar einfaldlega upp.
Út frá þessu eru nánast allar aukapersónur hundleiðinlegar og pappírsþunnar. Mos Def og Jack Black standa sig vel í fíflalátunum og er sterkasti þáttur myndarinnar sá hvað þeir vita ekki neitt um stuttmyndagerð. Báðir tveir standa upp úr, en í raun gerir enginn annar það. Grunnplottið er alltof móralískt og vægast sagt klisjukennt (eigulausir einstaklingar sem safna upp pening til að bjarga húsi sem hefur "tilfinningalegt gildi"). Í síðari hálfleik fór myndin talsvert að fara í taugarnar á mér með því hversu yfirdrifin hún var.
Þetta væri í sjálfu sér allt í lagi ef að myndin væri nett fyndin umfram allt, en hún er það ekki! Myndin er ekkert sérlega fyndin. Það eru alveg brosleg atriði og nokkur bráðfyndin meira að segja. Ég vonaðist engu að síður eftir "feel good-mynd." Þegar uppi er staðið fékk ég aðeins hálfa þannig mynd.
5/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei