Teiknimyndadeild Fox hefur hingað til ekki staðið traustum fótum. Fyrst gerðu þeir Anastasia, sem gekk ekki nema miðlungsvel. Næst kom ofurbomban Titan A.E. sem var rándýr í framleiðslu og skilaði engu í kassann. Það hrikti í stoðunum og talað var um það innanbúðar hjá Fox að leggja árar í bát og gefast upp á teiknimyndum. Það var þó ákveðið að reyna einu sinni enn, og gera tölvuteiknimynd líkt og bæði Pixar/Disney ( A Bug’s Life , Toy Story ) og PDI/Dreamworks ( Antz , Shrek ) hefur gengið svo vel með. Útkoman var Ice Age , sem reyndist síðan vera stórsmellur og nú hafa þeir hjá Fox varla undan að telja aurana. Það er því ljóst að þeir hjá teiknimyndadeild Fox halda því starfinu, a.m.k. enn um sinn, en þá er spurningin sú hvað sé næst? Svarið er Robots, en hún á að gerast í veröld þar sem aðeins eru vélmenni. Einnig, og samhliða, verður að sjálfsögðu gert framhald af Ice Age, en þar sem tölvuteiknimyndir eru lengi í framleiðslu megum við bíða róleg eftir að sjá þær lengi enn.

