Bátsferð Pi vaknar til lífsins

Í meira en áratug núna hefur leikstjórinn Ang Lee aðlagað skáldsögur, smásögur og jafnvel myndasögur að hvíta tjaldinu og í heildina hefur kappanum tekist vel til. Í takt við ferilinn þá er nýjasta verkefni hans einnig aðlögun, en í þetta skiptið er það kanadíska skáldsagan Life of Pi.
Það eru heil 3 ár síðan að Lee tók að sér leikstjórastöðu verkefnisins, en framleiðendunum fannst upprunalega umbeðna fjármagnið vera aðeins of gríðarlegt, var því framleiðslu myndarinnar frestað. Síðan eyddi Lee mánuðum í að moka í gegnum 3.000 umsækjendur fyrir aðalhlutverkið.

Í stuttu máli þá fjallar sagan, skrifuð upprunalega af Yann Martel, um drenginn Pi sem ferðast með fjölskyldu sinni til Kanada. Á leiðinni hins vegar fara hlutirnir úrskeiðis og verður hann strandaður í björgunarbát ásamt sebrahesti, órangútan, híenu og Bengal tígrisdýri.

Verkefnið hefur þurft að fara í gegnum nokkra leikstjóra og handritshöfunda á þessum 9 árum síðan að kvikmyndarétturinn var keyptur. Fyrst var enginn annar en M. Night Shyamalan fenginn til að leikstýra handriti eftir Dean Georgaris, en síðar skrifaði hann sjálfur nýtt handrit fyrir myndina og sýndi hugsanlega ómannlegan viljastyrk með því að skrifa ekki inn fjarstætt ‘twist’ í endann. Vægast sagt skaut hann sig kannski aðeins í fótinn, því hann ákvað að leikstýra Lady in the Water í staðinn og framleiðendur Pi fóru á nýjar slóðir.
Næst var Alfonso Cuarón fenginn í verkið, en sem betur fer var hann ekki lengi að ákveða að taka að sér Children of Men í staðinn. Þá var franski leikstjórinn Jean-Pierre Jeunet (Amélie, City of Lost Children) ráðinn, en síðar fór hann einnig frá verkefninu.

Nú er Ang Lee bæði kominn með handrit eftir David Magee (Finding Neverland) og aðalleikara, hinn 17 ára Suraj Sharma. Áætlaður útgáfudagur er 21. desember næstkomandi, en á meðan getið þið kíkt á fyrstu stillunna úr myndinni hér fyrir neðan.