Batman verður lúinn og þreyttur

Batman, í túlkun Ben Affleck, í væntanlegri mynd þar sem Batman og Superman leiða saman hesta sína, verður „lúinn og þreyttur og úr sér genginn, og hefur verið svoleiðis um hríð,“ segir forstjóri Warner Bros kvikmyndaversins, Kevin Tsujihara, á fundi með fjárfestum í dag.

superman-batman

Forstjórinn gaf þessa lýsingu á persónunni á ráðstefnu fyrir fjárfesta, sem bar yfirskriftina The Bank of America Merrill Lynch Media, Communications and Entertainment Conference.

Affleck var þar kynntur sem val kvikmyndaversins í hlutverk Batman á móti Henry Cavill í hlutverki Superman í ónefndu framhaldi af Man of Steel, sem frumsýnd verður árið 2015, og leikstýrt verður af Zack Snyder.

Valið á Affleck hefur ekki fallið öllum í geð, en Tsujihara sagði að hann væri „fullkominn“ í hlutverkið. „Við búumst við því að myndin verði risastór,“ bætti hann við.

Forstjórinn sagði að kvikmyndaverið „gæti ekki verið ánægðara“ með gengi Man of Steel í miðasölunni í sumar, en myndin þénaði meira en 600 milljónir Bandaríkjadala um heim allan. „Við teljum að þetta sé frábær stökkpallur fyrir Batman og Superman,“ bætti hann við.

Tsujihara gaf einnig í skyn að það væri hægt að vænta „margra tilkynninga“ á næstunni varðandi myndina og önnur verkefni tengd samstarfi Warner Bros og DC Comics teiknimyndafyrirtækisins sem Superman er ættaður frá, m.a. eru í vinnslu þrjár teiknaðar sjónvarpsseríur.