Það styttist í jólin – Uppáhalds jólamynd Íslendinga #3

Við nálgumst uppáhaldsjólamynd Íslendinga óðfluga (sem minnir mig á hvað ég á eftir að gera margt fyrir jólin…) Nú erum við komin að þremur efstu myndunum, en eftir það sem mörgum fannst óvæntur aðili í fjórða sætinu í gær er aldrei að vita hvað leynist í þremur efstu sætunum… En munið: Þið völduð þennan lista, lesendur góðir! Lítum á hvaða mynd er næstnæstefst…

3. sæti:
HOME ALONE (1990)
Macaulay Culkin. Munið þið eftir honum? Einu sinni var hann stærsta barnastjarna veraldar, og það var (næstum) allt þessari mynd að þakka. Hinn átta ára Kevin McCallister er óvart skilinn eftir heima þegar fjölskyldan fer í langferð til ættmenna yfir jólin, en svekkelsið hverfur fljótlega þegar tveir treggáfaðir innbrotsþjófar ætla að ræna húsið hans. Kevin setur upp fjölda gildra sem þeir ganga í eina á eftir annarri á sama tíma og mamma hans reynir hvað hún getur til að komast aftur heim til sonarins.

Og tvö önnur, svona upp á djókið:

Segið okkur hvað ykkur finnst um Home Alone. Á hún skilið að vera á þessum lista?

-Erlingur Grétar