Banvænn Butler og Hall í hættu

Fjörið heldur áfram þessa vikuna í íslenskum kvikmyndahúsum þegar tvær nýjar myndir bætast í bíóflóruna. Myndirnar eru The Night House og Copshop.

Gerard Butler leikur aðalhlutverkið í Copshop en myndin segir frá því þegar slunginn svikahrappur á flótta undan stórhættulegum leigumorðingja felur sig inni á lögreglustöð í litlum bæ.

Gaf meðleikara rafstuð

Butler, 51 árs, sem leikur leigumorðingjann Bob Viddick í myndinni, hefur upplýst í samtölum við fjölmiðla að mikið hafi gengið á á tökustað myndarinnar og meðal annars varð hann fyrir því óláni að gefa meðleikara sínum rafstuð.

„Það er mikill hasar í kringum mig yfirleitt en ég lendi mjög sjaldan í því að slasa einhvern á tökustað. En hérna þá var ég að berjast við einhvern staðgengil og hann lamdi höfðinu utaní skáp og fékk gat á hausinn,“ sagði Butler.

Butler bætti um betur þegar hann hélt á rafbyssu nokkru síðar og skaut óvart staðgengil með byssunni. Hann gekk þó blessunarlega óskaddaður á brott.

Martraðakennd reynsla úti í skógi

The Night House er geðtryllir sem fjallar um Beth sem er reyna að jafna sig á sviplegum dauða eiginmanns síns og býr nú ein í húsinu við vatnið sem hann byggði fyrir hana. Hún reynir eins og hún getur að halda lífinu áfram en þá fer hún að fá ógnvekjandi martraðir.

Fjórar stjörnur

Vefsíðan The National News kallar hana eina mest ógnvekjandi mynd ársins. The Guardian gefur myndinni fjórar stjörnur og segir að frammistaða aðalleikonunnar Rebeccu Hall sé eftirminnileg.

The Hollywood Reporter dáist að kvikmyndatöku Elisha Christian sem og tónlist Ben Lovett sem byggir undir ískrandi spennuna í myndinni.

Sarah Goldberg og Rebecca Hall í The Night House.

Hressandi breyting

Hall hefur látið hafa eftir sér að henni hafi fundist það hressandi að leika í The Night House eftir alla vinnuna fyrir framan „græna skjáinn“ í hinni brelluríku Godzilla Vs. Kong.

Myndin var fyrst frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í byrjun árs 2020, rétt áður en faraldurinn hófst. Beðið var með frumsýningu í hefðbundnum bíóhúsum í eitt og hálft ár vegna faraldursins.