Avengers fljúga hátt – Vargur í öðru sæti

Marvel ofurhetjuherinn í Avengers: Infinity War heldur íslenskum bíógestum í heljargreipum aðra vikuna í röð, en myndin var sú langaðsóknarmesta nú um helgina með meira en 12 milljónir króna í greiddan aðgangseyri.

Í umfjöllun um myndina segir gagnrýnandi Morgunblaðsins Stefán Gunnar Sveinsson m.a. : „The Avengers: Infinity War er því sannkölluð rússíbanareið þar sem allt er skrúfað upp í topp sem hægt er að skrúfa upp í topp. Óhætt er að mæla með henni við alla sem hafa fengið einhverja nasasjón af Marvel-kvikmyndaheiminum á undanförnum áratug, sem og þá sem vilja gleyma sér eina kvöldstund yfir einni mestu „poppkornsbíómynd“ seinni tíma. Þessi, svo vitnað sé í gítarleikara Spinal Tap, fer alla leiðina upp í ellefu.“

Myndin í öðru sæti, íslenski spennutryllirinn Vargur, komst því miður ekki með tærnar þar sem Avengers hafði hælana, en tekjur myndarinnar, sem er ný á lista, námu um tveimur milljónum króna. Þriðja sætið féll svo Víti í Vestmannaeyjum í skaut, en myndin fer niður um eitt sæti á milli vikna.

Ein ný mynd til viðbótar er á listanum, 7 Days in Entebbe, en hún fór beint í sjöunda sæti aðsóknarlistans.

Sjáðu listann í heild sinni hér fyrir neðan: