Avengers 2 verður smærri en sú fyrri

Enn eru tveir mánuðir í aðra af tveimur bíómyndum sem nördarnir halda ekki vatni yfir í sumar, en leikstjórinn/handritshöfundurinn Joss Whedon er engu að síður duglegur að horfa í framtíðina og er byrjaður að spá í framhaldinu. Það er hvort eð er öruggt að fullyrða það að séu engar líkur séu á því að The Avengers muni floppa.

Whedon var spurður í viðtali við tímaritið SFX hvernig planið væri síðan að toppa þessa massastóru mynd sem hann er á fullu að ljúka við núna, og svarið hans kom skemmtilega á óvart:
„Með því að reyna að gera það ekki…“ svaraði Whedon. „Það er ómögulegt að gera eitthvað stærra, og þess vegna langar mig til að gera eitthvað talsvert minna, en samt miklu persónulegra og sársaukafyllra. Ég vil ekki endurvinna sömu formúluna og við vorum að nota heldur einblína betur á þessar persónur á miklu athyglisverðari og dekkri máta. Gera eitthvað ferskt og mannlegt.“

Með þessum orðum er Whedon ábyggilega einn djarfasti en um leið aðdáunarverðasti stórmyndaleikstjórinn þarna úti í dag, og undirritaður er þegar orðinn miklu spenntari fyrir bæði Avengers og óhjákvæmilega framhaldinu. Þegar fólk spyr mann: „Hvað ætlarðu svo að gera ef Avengers mun sökka?“ Þá svara ég alltaf: Ekki séns! Þetta er Joss Whedon. Maðurinn er veit hversu miklu máli persónurnar skipta og er hasarinn oftast notaður til að þjóna þeim í stað þess að fullnægja einungis áhorfendum með athyglisbrest. Orðrómarnir segja að The Avengers verði miklu persónudrifnari bíómynd heldur en okkur grunar, en sömuleiðis stærri í hasarnum en búið er að gefa í skyn.
Við munum semsagt ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur, og það er ekki leiðinleg tilfinning.

Hvað finnst þér annars um stefnuna á Avengers 2?