Eins og sagt var frá fyrr í vikunni í helstu miðlum, þá mun Bohemian Rhapsody leikarinn Rami Malek leika aðal óþokkann í næstu James Bond mynd, þeirri 25. í röðinni.
Í tilefni af opinberri tilkynningu um málið, og eftir að sögusagnir höfðu gengið lengi, þá tjáði Malek sig um fréttirnar og skýrði hvernig honum finndist að vera orðinn hluti af James Bond kvikmyndaseríunni, og hvernig hann ætlaði að velgja Daniel Craig undir uggum í myndinni.
Tökur myndarinnar hefjast á sunnudaginn næsta, þann 28. apríl, og Rami Malek er orðinn spenntur að hitta leikara og tökulið. Hann segir frá því hve mikla þýðingu þessi ráðning hefur fyrir hann, sérstaklega eftir hina miklu velgengni Bohemian Rhapsody, en fyrir leik sinn í henni fékk hann Óskarsverðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki. En eitt af því marga sem hann ræddi voru væntingar hans til samstarfsins við Daniel Craig sem leikur James Bond sjálfan, nú í síðasta skipti:
“Mér finnst Daniel hafa skilað frábæru verki, og James Bond í hans túlkun er þannig að fólk á auðvelt með að tengja við hann. Augljóslega er fullt af hlutum sem enginn getur gert sem James Bond, en hann gerir þetta með stíl, en mannlegur, kaldhæðinn á sama tíma og hann er miskunnarlaus, en þú ert alltaf með honum í liði. Hann hefur verið framúrskarandi. Það verður mjög áhugavert að etja kappi við hann í myndinni … þetta verður spennandi, og þetta er síðasta myndin hans. En ég ætla að láta hann finna fyrir mér.”
Malek segir einnig að uppáhalds Bond mynd hans sé Dr. No. Það eru enda líkindi með þessari nýju mynd og Dr. No því hluti myndarinnar er tekinn í Jamaika, þar sem Dr. No var líka tekin.
Auk Malek og Craig, þá snúa aftur þau Ralph Fiennes, Naomie Harris, Rory Kinnear, Léa Seydoux, Ben Whishaw og Jeffrey Wright. Að auki eru nýliðarnir Ana de Armas, Dali Benssalah, David Dencik, Lashana Lynch og Billy Magnussen komnir um borð.
Hefst á afslöppun
Myndin mun hefjast þar sem Bond er að slaka á í Jamaíka, eftir að hafa lagt byssuna á hilluna. En allt það breytist þegar leyniþjónustan CIA kemur og biður um aðstoð.
Cary Joji Fukunaga leikstýrir eftir handriti Neil Purvis, Robert Wade, Scott Z. Burns, Phoebe Waller-Bridge og Fukunaga sjálfs.
Von er á Bond í bíó þriðja apríl 2020.