Ári eftir skilnað er lífið enn erfitt

Kvikmyndaleikkonan og leikstjórinn Angelina Jolie segist taka einn dag fyrir í einu, þegar hún er spurð um líðan sína ári eftir að hún skildi við eiginmann sinn Brad Pitt: „Ég er bara að reyna að komast í gegnum dagana.“

Jolie og Pitt, sem eiga saman sex börn, sóttu um skilnað árið 2016 eftir tveggja ára hjónaband.

Leikkonan sagði nýlega í viðtali við Vanity Fair tímaritið að álagið frá skilnaðinum, og áhrif þess á fjölskylduna, hefðu leitt til þess að hún hefði þróað með sér „Bell’s palsy“, en það er ákveðin gerð af andlitslömun, sem verður til þess að maður á erfitt með að stjórna vöðvum í andliti.

Jolie, 42 ára, sem er auk þess að vera leikstjóri og leikkona, öflug í mannréttindabaráttu, sagði við breska dagblaðið the Telegraph: „Ég nýt þess ekki að vera einhleyp. Það er ekki eitthvað sem ég vildi. Það er ekkert gott við það. Það er bara erfitt.

Stundum virðist sem ég sé að ná mér upp úr þessu, en ég er í raun bara að reyna að komast í gegnum dagana.

Þetta hefur verið mjög erfitt ár tilfinningalega.

Ár er nú frá skilnaði hjónanna sem léku saman í hasarmyndinni Mr & Mrs Smith. Einn mánuður er síðan Jolie birti fyrstu stikluna úr næstu mynd sinni, First They Killed My Father.

Jolie leikstýrir myndinni en hún fjallar um ógnarstjórn Rauðu Khmeranna í Kambódíu á áttunda áratug tuttugustu aldarinnar. Kvikmyndin er gerð eftir endurminningum aðgerðasinnans og fyrirlesarans Loung Ung.