Allt að gulli hjá James Wan

Enn ein kvikmyndin úr smiðju framleiðslufyrirtækis hrollvekjumeistarans James Wan, Atomic Monster, The Curse of La Llorona, sló í gegn í miðasölunni í Bandaríkjunum nú um helgina. Svo virðist sem allt sem Wan snerti, verði að gulli.

Ótti

Þó myndin sé ekki kynnt sem hluti af „Conjuring heiminum“ , þá er hún það samt, og er því enn ein myndin frá Wan sem fær góða aðsókn á frumsýningarhelgi.

Leikstjóri myndarinnar er nýliðinn Michael Chaves, en tekjur myndarinnar á frumsýningarhelgi í Bandaríkjunum námu 26,5 milljónum bandaríkjadala. Kostnaður við gerð hennar var einungis níu milljónir dala.

Til samanburðar við aðrar myndir í seríunni, þá urðu tekjur The Nun 365 milljónir dala í sýningum um allan heim, og Annabelle: Creation og Conjuring 2 fóru báðar yfir 300 milljónir dala. Þó að La Llorona nái ekki sömu hæðum, þá er samt um mikla velgengni að ræða.

Fleiri myndir úr seríunni eru á leiðinni. Annabelle Comes Home kemur 28. júní nk., og þriðja Conjuring myndin er væntanleg. Það virðist því enn nóg til af hugmyndum.

Af öðrum myndum í bandarískum kvikmyndahúsum er það að segja að Hellboy, er á niðurleið á sinni annarri viku á lista, en aðsókn hefur valdið vonbrigðum. Tekjur hennar námu aðeins 3,88 miljónum dala á annarri sýningarhelgi. Samtals eru tekjurnar komnar upp í 19,67 milljónir dala. Ekki er enn vitað hvernig myndinni hefur verið tekið utan Bandaríkjanna, en hún er væntanleg til Íslands 10. maí nk. Fari svo sem horfir þá er myndin ein af mestu vonbrigðum ársins í Hollywood.