Allar Harry Potter myndirnar sýndar í ágúst

Unnendur galdrastráksins Harry Potter og tilheyrandi kvikmyndabálk sérstaklega geta farið að skipuleggja metnaðarfullt bíómaraþon á komandi vikum. Í tilkynningu frá Sambíóunum er gefið upp að (endur)sýningar munu hefjast á öllum átta myndum seríunnar og verða þær allar sýndar í Kringlubíói.

Kvikmyndasumarið 2020, líkt og flestir vita, hefur verið hið óvenjulegasta. Samkvæmt úttekt veftímaritsins Vulture var útgáfu 77 stórmynda verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Þar á meðal eru fjölmargar kvikmyndir sem átti að sýna í vor og sumar. Faraldurinn hefur jafnframt haft áhrif á útgáfudag kvikmynda sem væntanlegar eru á næsta ári.

Eftir að kvikmyndahús opnuðu á ný í kjölfar Covid-19 hefur verið reynt að bæta upp skort á nýjum titlum með því sýna eldri myndir. Um þessar mundir er til dæmis hægt að sjá kvikmyndirnar The Matrix og Mad Max: Fury Road.

Fyrstu þrjár Harry Potter kvikmyndirnar lenda núna þann 14. ágúst. Fjórða, fimmta og sjötta verða svo aðgengilegar frá og 18. ágúst og síðustu tvær myndirnar teknar til sýninga þann 21. ágúst. Athugið að fyrstu þrjár myndirnar verða ekki í boði með íslensku tali, þó þær hafi verið sýndar þannig á sínum tíma.


14. ágúst

Harry Potter and the Philosopher’s Stone (2001)
Harry Potter and the Chamber of Secrets (2002)
Harry Potter and the Prisoner of Azkaban (2004)

18. ágúst

Harry Potter and the Goblet of Fire (2005)
Harry Potter and the Order of the Phoenix (2007)
Harry Potter and the Half-Blood Prince (2009)

21. ágúst

Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 1 (2010)
Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 2 (2011)