Grín-spennumyndin Bad Boys: Ride or Die, sú fjórða í röðinni, hefur strax slegið í gegn í miðasölunni í Bandaríkjunum.
Í myndinni leika þeir Will Smith og Martin Lawrence löggupar sem vill reyna að heiðra minningu yfirmanns síns.
Myndin var frumsýnd sjöunda júní sl. og er þegar þetta er skrifað búin að hala inn 54 milljónum Bandaríkjadala, eða litlum 7,6 milljörðum íslenskra króna.
Hár kostnaður
Reyndar var kostnaður við gerð myndarinnar talsvert hár eins og ScreenRant bendir á, og því veitir henni ekki af þessari góðu aðsókn.
Þá hefur myndin fengið 97% áhorfendaeinkunn á bíósíðunni Rotten Tomatoes og er þar með orðin sú Bad Boys mynd með hæstu einkunnina á þeirri síðu.
Auðvitað gæti það breyst eftir því sem fleiri sjá myndina en viðbrögðin eru mjög góð svo stuttu eftir frumsýningu.
Þegar Howard, gamli lögregluforinginn þeirra, sem nú er látinn, er tengdur við eiturlyfjahringi, fara vinirnir og lögreglumennirnir Mike Lowry og Marcus Burnett af stað í mikla hættuför til að hreinsa nafn hans. ...
Eins og Screen Rant bendir á þá hafa einkunnir myndanna farið batnandi með árunum. Þó að Ride or Die sé ekki sú sem gagnrýnendur elska mest, þá dýrka áhorfendur hana þeim mun meira. Með sín 97% er myndin einu prósentustigi hærri en Bad Boys for Life og 19 punktum hærri en Bad Boys og Bad Boys ll. Engin Bad Boys kvikmynd hefur farið niður fyrir 75% áhorfendaeinkunn, en myndin tók stökk upp á við þegar leikstjórarnir Adil El Arbi og Bilall Fallah tóku við seríunni af Michael Bay.
Ekki á sömu slóðum
Tómatamælirinn (The Tomatometer Score), sem mælir viðbrögð gagnrýnenda, er kannski ekki alveg á sömu slóðum og áhorfendamælirinn. Aðeins ein Bad Boys mynd, Bad Boys for Life, hefur farið upp fyrir 75% á tómataskalanum, á meðan Bad Boys er með 44% og Bad Boys ll með aðeins 24%.