Afhjúpun! Þetta var í töskunni í Pulp Fiction

Aðdáendur Pulp Fiction hafa lengi velt fyrir sér hvað hafi eiginlega verið í skjalatösku Marcellus Wallace sem þeir Jules og Vincent voru að reyna að endurheimta fyrir yfirmann sinn. taskan

Núna hefur það loksins verið afhjúpað, eða svona næstum því.

Síðan kvikmyndin vinsæla kom út árið 1994 hafa miklar vangaveltur verið uppi um innihaldið. Allt frá því að  sál Marcellus hafi verið í töskunni og vísar það til plástursins á hálsi hans, því þaðan hafi sálin verið tekin. Yfir í það að í töskunni hafi verið gylltur íþróttagalli Elvis Presley.

Samkvæmt öðrum kenningum voru annað hvort kjarnorkuvopn í henni eða hið heilaga gral.

Núna hefur leikarinn Phil LaMarr stigið fram en hann lék Marvin, einn þeirra sem stálu töskunni, sem endaði síðan líf sitt á óvæntan hátt í bíl Jules og Vincent.

Í podcastinu I Was There Too útskýrði LaMarr hvað það var sem lýsti upp andlit John Travolta í hlutverki Vincent Vega þegar hann opnaði töskuna. „Ljós. Gul ljósapera sem var ekki sterk,“ sagði hann.

Kannski er þetta augljóst svar en þegar LaMarr spurði leikstjórann Quentin Tarantino við tökur myndarinnar hvað ætti í rauninni að vera í töskunni, sagði hann: „Það sem þú vilt að sé þar“.

pulpe

LaMarr segist hafa velt því fyrir sér allar götur síðan hvort hann hefði meinað að í töskunni hefði verið það sem hann sjálfur eða áhorfendur vildu að væru þar, eða það sem sá sem opnaði töskuna vildi að væri þar.

Hvað þá með plásturinn á hnakka Marcellus Wallace?  „Ving [Rhames sem lék Wallace] rakar sjálfur á sér höfuðið og hann mætti á æfingu með plástur á hnakkanum,“ sagði LaMarr. „Þá sagði Quentin: „Þetta væri sjónrænt flott. Af hverju sleppi ég því ekki bara að sýna á honum andlitið?“. Plásturinn er þarna út af Ving,“ sagði LaMarr.

Atriðið í bíl Jules og Vincent þegar Marvin dó átti einnig að vera öðruvísi, samkvæmt upphaflega handritinu. Það átti að vera mun lengra og átti Marvin að hafa verið skotinn í hálsinn. Jules og Vincent áttu svo að lokum að binda enda á þjáningar hans.

Það var Travolta sem lagði til að atriðið tæki styttri tíma, með hlaðna byssu, holu í veginum og svartan húmorinn í lokin.

Hér má sjá fréttina í heild sinni ásamt myndbandi þar sem rakið er hvernig leikurunum úr Pulp Fiction hefur reitt af síðan myndin var frumsýnd fyrir 21 ári síðan.