Affleck laumast aftast í bíósalinn

Leikarinn og leikstjórinn Ben Affleck hefur viðurkennt að hann hafi mjög gaman af því að fylgjast með áhorfendum horfa á myndina sína Argo.

„Ég er sjálfur í lítilli loftbólu en eitt af því sem hefur verið ánægjulegt í sambandi við myndina er að horfa á hana með áhorfendum. Í fyrsta sinn á ævinni, fyrir utan kannski Good Will Hunting, hef ég gert mynd þar sem mér finnst áhorfendur hlæja á réttum tíma og fylgja eftir flæði myndarinnar. Maður gerir einmitt kvikmyndir fyrir áhorfendurna,“ sagði Affleck við Absolute Radio.

„Maður vill að fólk sjái myndirnar og þess vegna er ótrúlega gefandi að laumast aftast í bíó og horfa á það skemmta sér.“

Affleck var kjörinn besti leikstjórinn á Bafta-verðlaununum og Argo var valin besta myndin.