Æðisgengin reið á hvítu hrossi

Tvær sérstaklega áhugaverðar og spennandi kvikmyndir bætast í bíóflóruna nú um helgina sem þýðir að úrvalið af kvikmyndum í bíó um Páskahelgina verður í einu orði sagt frábært! Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Björk er seiðkona án augna.

Fyrst ber að nefna The Northman, víkinga – hefndarsögu með sterkri íslenskri tengingu. Hin myndin er fantasían Everything Everywhere All at Once, þar sem okkur er boðið í æðisgengið ferðalag milli vídda.

Björk án augna

Í umfjöllun BBC um The Northman kemur fram að þar sé á ferð mynd þar sem Björk leikur norn með engin augu og Valkyrja fari í æðisgengna reið á hvítu hrossi um himingeiminn. Myndin sé mitt á milli þess að vera tilraunakennt listaverk og norræn útgáfa af Gladiator.

Leikstjóri myndarinnar, Robert Eggerts, segir í samtali við The New Yorker að myndin sé listræn en samt sem áður fyrir alla. Þá segir hann í samtalinu að þó að myndin sé að einhverju leiti lík sögulegum stórmyndum eins og Gladiator og Braveheart, þá sé The Northman „undarlegri“.

Endurskapar horfinn heim

Auk þess að leikstýra myndinni skrifar Eggers, sem þekktur er fyrir myndirnar The Witch og The Lighthouse, handritið ásamt Sjón.

BBC segir að í The Northman hafi Eggers rétt eina ferðina endurskapað horfinn heim og gert það af natni og nákvæmni. Nú hafi hann þó haft úr meira fé að moða en í fyrri verkefnum og sé með frægari leikara í leikhópnum.

Ástfangin á Íslandi.

Meðal leikenda eru Nicole Kidman, sem leikur drottninguna og Ethan Hawke sem leikur konunginn, en þau eru að búa sig undir að afhenda syni sínum, prinsinum Amlóða, völdin árið 895. En áður en það tekst, drepur hinn grami og miður geðþekki bróðir konungs, Fjölnir, sem leikinn er af Claes Bang ( The Square ), konunginn og fer á brott með drottninguna. En til allrar óhamingju fyrir Fjölni, þá tekst skósveinum hans ekki að drepa hinn unga Amlóða. Hann vex því úr grasi og verður glæsilegur ungur maður (Alexander Skarsgård), sem heitir því að hefna foreldra sinna.

Konungur í kröppum dansi.

Fyrir áhugasama má geta þess að sagan er sú sama og Shakespeare notaði þegar hann samdi Hamlet.

Löng hefndarför

En aftur að Amlóða. Hefndarför hans er hvorki stutt né einföld. Hann flýr heimalandið og er tekinn í fóstur hjá ættbálki sem þjálfar hann upp í að verða blóðþyrstur vígamaður. Eins og sjá má í myndinni valsar hann til dæmis í gegnum þorp og hjálpar félögum sínum að slátra hálfum bænum og hneppa restina í þrældóm. BBC segir að sú sena sé frábærlega unnin, en hreinsi burtu alla samúð sem við gætum hafa haft með hetjunni. Við fáum á tilfinninguna að hetjan sé mögulega mun samviskulausari fauti en Fjölnir er nokkurntímann.

Amlóði er vígalegur víkingur sem drepur mann og annan.

Síðar dulbýr Amlóði sig sem þræl og laumar sér í skip á leið til Íslands þar sem frændi hans býr á bæ og verður ekki farið nánar í þá sálma hér, en meðal annars knýr ástin dyra hjá Amlóða (Ana Taylor-Joy).

Verðlaunaleikstjórinn Alfonso Cuarón ( Gravity, Roma ) segir í The New Yorker að hann hafi séð myndina, og fundist hún geggjuð. „Hver einasti rammi er hlaðinn þematengdum hlutum í gegnum alla myndina,“ sagði Cuarón. „

Vímukennd upplifun

Þá segir hann að myndin láti áhorfendum líða eins og þeir séu í raun og veru á Íslandi með víkingum. „Upplifunin er næstum vímukennd,“ sagði leikstjórinn. „Þú ert þarna og andar í takt við leikarana.“

Hver viltu vera?

Ef þú gætir verið hvaða útgáfa sem er af sjálfri þér í alheimi með óendanlegum möguleikum, hvaða útgáfu myndir þú velja? Þetta er spurningin sem spurt er í kvikmyndinni Everything Everywhere All at Once

Myndin er önnur kvikmynd tónlistarmyndbandatvíeykisins Daniel Kwan og Daniel Scheinert, sem kalla sig Daniels. Tvíeykið vakti athygli með fyrstu kvikmynd sinni Swiss Army Man (2016) sem fjallaði um rotnandi, prumpandi lík á ströndu.

ABC lýsir Everything Everywhere All at Once sem tilvistarlegum vísindatrylli, kung-fu veislu, næmri sögu af innflytjanda í Bandaríkjunum og ferðalagi á ljóshraða í gegnum hálfa öld af kvikmyndasögu og margvíslegu myndleiftri af internetinu og víðar.

Föst á hamstrahjólinu

Aðalhetjan er Evelyn Wang sem leikin er af Michelle Yeoh (Crouching Tiger, Hidden Dragon – Crazy Rich Asians). Hún er miðaldra kínversk-bandarískur innflytjandi sem býr fyrir ofan þvottahús sem hún á og rekur í Simi Valley í Kaliforníu ásamt eiginmanni sínum Waymond sem leikinn er af Ke Huy Quan. Quan er best þekktur sem barnastjarna úr eitís myndunum Indiana Jones and the Temple of Doom og Goonies.

Í samtali við Vulture lýsti Quan Yeoh sem „Algjörri drottningu austurlenskra slagsmálamynda.“

Á heimilinu er einnig hin háðska rúmlega tvítuga dóttir hjónanna, Joy, sem Stephanie Hsu leikur.

Evelyn dreymdi um að verða leikkona, en er hún föst á hamstrahjólinu, með hversdagslegar áhyggur.

Pabbi hennar er á leið í heimsókn frá Kína og Evelyn kvíðir því að fá hann í heimsókn af ýmsum ástæðum. Ennfremur eiga þau hjónin í fjárhagserfiðleikum og þurfa að mæta á fund hjá bókara hjá skattinum sem leikinn er af Jamie Lee Curtis í sinnepslitaðri rúllukragapeysu. Hún hótar hjónunum gjaldþroti. Og til að bæta gráu ofaná svart þá er Waymond um það bil að fara að sækja um skilnað.

Hætti að halda inni maganum

Curtis sagði við EW að hún hafi viljað líta „raunverulega“ út í hlutverkinu. „Ég hef haldið maganum inni síðan ég var ellefu ára gömul. Ég ákvað að slaka á öllum vöðvum núna sem ég hef hingað til haft spennta.“

Curtis hótar gjaldþroti.

Vandamál Evelyn breytast í sannkallaða vísindaskáldsögu þegar önnur útgáfa af Waymond, útsendari úr einum af mörgum fjölheimum (multiverse), birtist, og fljótlega sér Evelyn að hún hefur aðgang að öllum hugsanlegum útgáfum raunveruleikans og þarf nú að berjast við alheimskraft sem vill skapa glundroða í fjölheimunum.

Glundroði.

Glundroðinn sem Evelyn þarf að bjarga fjölheiminum frá, er, eins og kemur í ljós, runninn undan rifjum hrekkjóttrar útgáfu af hennar eigin dóttur, ofur-villingi sem kallar sig Jobu Tupaki.