Morðóðar kindur ráðast á fólk

Já, svo hljóðar söguþráðurinn í myndinni Black Sheep, en hún gengur út á að mislukkaðar genatilraunir enda með því að venjulegar kindur breytast í blóðþyrsta morðingja sem tæta allt og trylla á bóndabýli á Nýja-Sjálandi.

Myndin verður frumsýnd í New York 22. júní næstkomandi. Í viðtali við leikstjórann, Jonathan King, kemur fram að WETA Workshop gerði skaðræðiskvikindin fyrir myndina. Glöggir kvikmyndaáhugamenn ættu að kannast við WETA, en fyrirtækið átti stóran þátt í gerð búninga og furðuvera fyrir The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring trílógíuna.

King segir enn fremur að það sé afar lítið um tölvugerðar tæknibrellur í myndinni svo það verður spennandi að sjá hvernig honum tekst upp við að skapa stemmningu. Myndin er blanda af hryllingsmynd og grínmynd, svipað og myndin Shaun of the Dead.