Schumacher leikstýrir eftir bók Kerouac

Hinn sérlega mistæki leikstjóri Joel Schumacher, sem bæði á slæmar myndir eins og Batman & Robin og fínar myndir eins og Tigerland, mun líklega leikstýra kvikmynd byggðri á hinni sígildu sögu Jack Kerouac sem heitir On The Road. Fjallar hún um rithöfundinn Neal Cassidy sem situr innilokaður inni í herbergi heima hjá frænku sinni, þegar vinur hans gefur honum þá hugmynd að fara út og ferðast um Bandaríkin. Eftir það er fylgst með honum stelast um borð í lestir og upplifa hæðir og lægðir landsins eins og Kerouac einum er lagið. Colin Farrell mun líklega leika aðalhlutverkið, og handritið er skrifað af Russell Banks ( Affliction ). Brad Pitt , Tom Cruise og Billy Crudup hafa allir verið orðaðir við aðalhlutverkið, og á tímabili ætlaði Francis Ford Coppola sjálfur að leikstýra myndinni. Hann lætur sér nægja þess í stað að framleiða myndina í gegnum American Zoetrope framleiðslufyrirtæki sitt.