Nú ættu allir Twilight aðdáendur að kætast því Stephanie Meyer, höfundur Twilight vampírubókanna sem samnefndar bíómyndir hafa verið gerðar eftir, sendir frá sér nýja bók þann 5. júní nk. Bókin heitir The Short Second Life of Bree Tanner og er stutt skáldsaga, svokölluð novella. Sagan er sögð frá sjónarhóli hinnar nýfæddu vampíru Bree Tanner sem dyggir lesendur kynntust í Twilight bókinni Eclipse.
Meyer sagði í yfirlýsingu að sagan hefði upprunalega átt að vera hluti af The Twilight Saga: The Official Guide, en segir að hún hafi reynst of löng til að passa þar inn.
Útgefandi bókarinnar segir að einn Bandaríkjadalur af hverri bók úr fyrstu prentun, sem er 1,5 milljón eintök, muni renna til Rauða krossins í Bandaríkjunum, eða the American Red
Cross International Response Fund, en það er sjóður sem hjálpar fólki sem lent hefur í náttúruhamförum líkt og á Haítí og Chile nýverið.

