Kvenhatararnir vinsælir

Aðsóknin á sænsku sakamálamyndina Män som hatar kvinnor, eða Karlar sem hata konur,  hefur verið framar björtustu vonum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Senu. Um 3.600 manns sáu myndina um verslunarmannahelgina og um 2.000 manns fóru í bíó á mánudaginn, frídag verslunarmanna, til að berja glæpinn augum.  Þetta þýðir að alls hafa nú yfir 20.000 manns séð myndina á Íslandi á aðeins 11 dögum og ekkert lát virðist vera á að sókninni, segir Sena í tilkynningunni.

„Fólk er að mæla með myndinni í gríð og erg og svo skemmir ekki fyrir frábærir dómar gagnrýnenda. Myndin er einnig að ná gríðarlegri útbreiðslu um allan heim og hefur nú verið seld til yfir 25 landa og nýjustu löndin á listanum eru Japan, Þýskaland, Austurríki, Suður Kórea og Portúgal,“ segir í tilkynningunni frá Senu.

Þess má geta að Tómas Valgeirsson gagnrýnandi Kvikmyndir.is gaf myndinni 7 stjörnur af 10 mögulegum, og fannst myndin „stórfín.“