Jackson endurgerir Gúmmí King Kong

Peter Jackson, sem skrifaði og leikstýrði endurgerðinni á King Kong árið 2005, sagði gestum á Comic-Con hátíðinni á dögunum að hann væri ásamt Universal að vinna að nýrri King Kong skemmtisýningu, sem kæmi þá í staðinn fyrir sýninguna sem eyðilagðist í eldi í  Universal Studios í Hollywood á síðasta ári.

„Við ætlum að gera mjög tæknilega flókna nýja útgáfu af King Kong,“ sagði hann í pallborðsumræðum á hátíðinni. 

Jackson sagði að hugmyndin hefði orðið til eftir að hann heyrði að upprunalegi King Kong apinn sem notaður var í skemmtisýningunni, væri ónýtur. „Gúmmí King Kong sem við vorum öll svo hrifin af, brann til ösku í eldinum mikla, og þeir vildu samt halda áfram að bjóða upp á King Kong sýningu,“ sagði hann. „Þannig að ég hef verið að vinna að þessu með Universal, og erum að byrja að búa þetta til.“

Hann sagði að allra nýjasta tækni yrði notuð til að gera þetta sem stórfenglegast fyrir gesti sem ferðast í ævintýraheimi King Kong á höfuðkúpueyju, og allt í þrívídd.

Hann sagði jafnframt að gestir ættu eftir að upplifa sig í miðjunni á æsilegum bardaga King Kong og T-Rex risaeðlunnar og finnast þeir nánast komnir inn í bardagann miðjan, þegar skrýmslin reyna að grípa gesti úr lestinni sem ferjar þá í gegnum skemmtigarðinn.

„Þetta verður ótrúlegur adrenalínpakki, og þarna gefst tækifæri á að gera allt það nýjasta í gagnvirkni með nýjustu tækni,“ segir Jackson. „Við munum pumpa heitu lofti á fólk og andfýlu, og þegar Kong gefur risaeðlunni einn á kjammann, mun hor úr risaeðlunni fljúga um loftið. Þannig að þetta verður mikið fjör, og eitthvað sem fólk getur hlakkað til að sjá.“