Í gær, miðvikudaginn 29.apríl, var haldin óvissusýning í SAMbíóunum Kringlunni og gáfum við hér á Kvikmyndir.is ófáa miða á sýninguna. Óvissumyndin reyndist vera Star Trek sem verður frumsýnd þann 8.maí næstkomandi. Myndin hefur hlotið gríðarlega gott umtal og flotta dóma, en Tómas Valgeirsson, gagnrýnandi Kvikmyndir.is, er vel sáttur með myndina og gefur henni 8/10 í einkunn.
Ásamt því að myndinni var vel tekið í gær vöktu trailerarnir sem sýndir voru á undan henni nokkra lukku, en sömu trailerar voru einnig sýndir á Star Trek forsýningu sem Nexus hélt sama kvöld kl.22:40, en óvissusýningin hófst kl.8.
Sýndir voru trailerar úr Harry Potter and the Half-Blood Prince, Transformers: Revenge of the Fallen og The Hangover. Harry Potter og Transformers munu án vafa verða ansi fyrirferðarmiklar í sumar en það var kannski The Hangover sem vakti hvað mesta athygli í gær, en salurinn gjörsamlega missti sig úr hlátri bæði á óvissusýningunni og Nexus forsýningunni.
Trailerana úr þessum myndum, þar á meðal The Hangover, má nálgast á undirsíðum þeirra hér á Kvikmyndir.is

