Fox vinnur Watchmen málið

Baráttan milli Fox og Warner heldur áfram, og brátt fer lokaniðurstaðan að koma í ljós, eða svo er talið líklegt.
Fyrir þá sem ekki vita þá komu upp deilur varðandi réttinn á hinni væntanlegu Watchmen mynd. Fox stúdíóið hafði lengi ætlað sér að framleiða Watchmen mynd fyrir nánast tveimur áratugum síðan (þá stóð til boða að hafa Terry Gilliam í leikstjórastólnum), en hætt var við þá hugmynd, enda voru aðstandendur sammála um að sagan væri alltof flókin til að vera rétt sögð á filmu. Hörðustu aðdáendur bókarinnar (þ.á.m. ég) eru einnig sammála því.

Aðstandendur Fox höfðu víst lítið skipt sér af framleiðslu Warner myndarinnar, þar til aðeins stuttu eftir að hún fór í eftirvinnslu. Lögð var fram kæra sem talin var jafnvel líkleg til að hafa áhrif á frumsýningu myndarinnar.
Samkvæmt New York Times eru aðstandendur Fox búnir að vinna málið, en örvæntið ekki! Þetta þýðir ekki endilega að myndin líti ekki dagsins ljós. Dómari í málinu að nafni Gary Feess tilkynnti að Warner og Fox ættu að komast að sameiginlegri niðurstöðu varðandi skiptinguna á hagnaði myndarinnar, í stað þess að fara lengra með réttarhöldin, en slíkt gæti jafnvel leitt til þess að Fox fái alfarið að eiga myndina.

Það er ekki 100% víst að Watchmen komi út í mars á næsta ári, en það þykir nokkuð líklegt. Brátt mun koma í ljós hvort að bæði stúdíóin nái að semja frið í málinu.