LA Times talaði nýverið við Trey Parker, höfund South Park þáttanna sívinsælu, varðandi þann sívaxandi orðróm að framhaldsmynd South Park: Bigger, Longer and Uncut væri að koma út, en fyrsta og eina South Park myndin kom út árið 1999.
South Park þátturinn Imaginationland, sem kom út fyrir stuttu, var þrískiptur af ástæðu, en sá þáttur var upprunalega hugmyndin að nýrri South Park mynd. Þeir félagar Trey Parker og Matt Stone voru orðnir uppiskroppa með hugmyndir og því tilneyddir til að nota hugmynd að kvikmynd sem þátt. Þetta gerir það að verkum að þeir eru með nákvæmlega engar hugmyndir að nýrri mynd, þar sem þættirnir hafa forgang þessa dagana.
Sú hugmynd sem Parker og Stone eru mest hrifnir af er að gera mynd til að ljúka South Park ævintýrinu, en þeir eru þó búnir að skrifa undir samning sem heldur þeim föstum við gerð þáttanna til ársins 2011, og þeir útiloka ekki að endurnýja hann. Þetta þýðir að ný South Park mynd er ekki væntanleg á næstu árum.
Hvað varðar mynd í fullri lengd frá þeim félögum (svipað og Team America: World Police) þá er það verkefni ekki heldur í bígerð.
Áhugasamir geta lesið viðtalið hér.

