Eftirfarandi er fréttatilkynning frá Poppoli Pictures
Kvikmynd Ólafs Jóhannessonar, Queen Raquela
hefur fengið dreifingu í kvikmyndahús í Bandaríkjunum, en myndin hefur
farið sigurför á kvikmyndahátíðum á árinu. Hún verður sýnd í fimm
borgum í Bandaríkjunum, þ.á.m. New York og Los Angeles, og hefjast
sýningar 26. september. Einnig er búið að selja myndina til Noregs,
Danmerkur, Grikklands, Póllands og Ísraels.
„Þetta er mikil viðurkenning að fá dreifingu í Bandaríkjunum, því
þetta er mjög erfiður markaður“ segir Ólafur, leikstjóri myndarinnar.
Ólafur segir þetta koma sér nokkuð á óvart því hann var ekki viss um að
myndin færi vel í Bandaríkjamenn vegna viðfangsefnsins. Myndin segir
frá Raquela, stelpustrák frá Filippseyjum sem dreymir um að flýja til
Vesturlanda til að finna draumaprinsinn.
„Áætlun mín var að gera mynd sem hefði ekki þessi hefðbundnu efnistök
fyrir „transgender“ fólk. Ég vildi ekki gera mynd um líffræðileg örlög
eins og kynskiptiaðgerð. Það virðist hafa tekist að gera mynd sem
fjallar fyrst og fremst um manneskju í leit að ástinni á mjög erfiðum
forsendum, því stelpustrákarnir í myndinni dreymir um að giftast
gagnkynhneigðum manni,“ segir Ólafur.
Nýlega hlaut myndin sérstök verðlaun fyrir afreksverk í þágu
samtíma kvikmyndagerðar á kvikmyndahátíðinni CinemaCity í Novi Sad í
Serbíu. Áður hlaut henni í skaut tvenn verðlaun á kvikmyndahátíðinni
NewFest í New York, þar sem dómnefnd valdi hana bestu alþjóðlegu
kvikmyndina og dómnefnd sjónvarpsstöðvarinnar Showtime kvað hana bestu
mynd hátíðarinnar. Áður hampaði hún hin eftirsóttu Teddy-verðlaun á
kvikmyndahátíðinni í Berlín, sem er meðal virtustu kvikmyndahátíða í
Evrópu.
Nýlega lauk sýningum á Queen Raquela á Los Angeles Film Fest og eru
næstu viðkomustaðir m.a. Brasilía, Argentína, Litháen og Malasía.
Queen Raquela á Kvikmyndir.is

