Fyrstu tölur úr miðasölunni í Hollywood sýna að mynd Alfonso Cuaron, stórsmellurinn Gravity, gæti haldið sæti sínum á toppi bandaríska aðsóknarlistans þriðju vikuna í röð. Myndin gerist úti í geimnum og er með Sandra Bullock og George Clooney í aðalhlutverkum.
Þrjár nýjar myndir voru frumsýndar í gær ytra, en miðað við fyrstu tölur lítur út fyrir að engin þeirra nái að ógna Gravity. Miðað við fyrstu tölur þá þénaði Gravity 8,8 milljónir Bandaríkjadala í gær föstudag sem þýðir að myndin stefnir í 29,3 milljóna dala tekjur yfir helgina alla og samanlagt síðan hún var frumsýnd; 168,9 milljónir dala.
Gravity var frumsýnd hér á landi í gær.
Hrollvekju endurgerðin Carrie, með Chloe Moretz og Julianne Moore, nær ekki að hræða fólk í bíó í stórum stíl miðað við þessar fyrstu tölur. Sjö milljónir dala komu í kassann í gær og útlit er fyrir 17 milljóna tekjur yfir helgina alla. Myndin kostaði 30 milljónir dala í framleiðslu.
Captain Phillips, með Tom Hanks í aðalhlutverkinu, er á ágætri siglingu, þó myndin hafi ekki náð því að fara á topp aðsóknarlistans um síðustu helgi. Búist er við að myndin verði búin að þéna alls 53 milljónir dala frá frumsýningu eftir þessa helgi.
Vinirnir Arnold Schwarzenegger og Sylvester Stallone mættu til leiks í gær í nýjustu mynd sinni Escape Plan og svo virðist sem aðdáendum þeirra sé eitthvað að fækka, spurning hvort menn séu hættir að taka þá trúanlega sem hasarhetjur vegna aldurs ….
Myndin er sú fjórða vinsælasta eftir sýningar gærdagsins með 3,4 milljónir dala í tekjur, og spáin er 10 milljónir dala yfir alla helgina.
The Fifth Estate, sagan um Wikileaks uppljóstrunarsíðuna, sem tekin var að hluta hér á landi og er með íslenskar persónur innanborðs, virðist vera að floppa meira en menn óttuðust, en búist er við að tekjur yfir alla helgina nái einungis 2 milljónum dollara. Myndin var frumsýnd á 1.769 bíótjöldum, sem þýðir að meðalaðsókn á hvern sýningarstað er aðeins 1,102 dalir.
En svona lítur þá topp 5 listinn út eftir sýningar gærdagsins:
1. Gravity
2. Carrie
3. Captain Phillips
4. Escape Plan
5. The Fifth Estate